Sunday, July 14, 2013

Ég ætla að hætta að vera feitur á morgun

Eins og sjá má af þessu grafi hefur leiðin verið upp á við, undanfarin tvö ár. Ég var í mínu besta formi fyrir u.þ.b. sex árum síðan, þegar ég var um 82 kg.
Jæja, þá er komið að því. Á morgun ætla ég að reyna (enn einu sinni) að grenna mig. Ég er ekki beint akfeitur, en ég hef munað minn fífil fegri. Þegar ég viktaði mig í morgun var ég 98.4 kg. og fituprósentan var komin upp í 27.8 stig. Samkvæmt BMI stuðlinum er ég 29.4, en allt yfir 25 telst vera "overweight" á meðan 30 og yfir er "obese" og þangað langar mig ekki.

Hvernig gerðist þetta?
Jú, ég vinn fyrir framan tölvu, hreyfi mig ekki nógu mikið og borða of mikið. Hugsanlega tengist það líka því að ég á tvö ung börn og þegar maður er í þeim pakka fækkar frístundunum manns ansi mikið. Svo tókst mér líka að skemma á mér lappirnar í langhlaupum. Það hjálpaði ekki. Útkoman: Fílamaðurinn, in the making.

Hvað er vandamálið?
Mitt helsta vandamál er sykurinn og kolvetni. Ég ELSKA kolvetni. Úða þessu drasli í mig eins og það sé engin morgundagurinn. Og áður en maður veit af er maður orðinn of feitur. Allt í einu eru flottu "slim fit" gallabuxurnar í 33-34 orðnar allt of skinny og maður skrifar það á það að maður sé ekki ungur lengur. Yeah right. Jú, vissulega er maður ekkert unglamb lengur (farinn að nálgast fertugt) en ég trúi því að maður velji sér það hvort maður sé feitur eða ekki. Ég hef valið að vera ekki (lengur) feitur.

Um hvað snýst þetta?
Á þessa síðu ætla ég að blogga um árangurinn af low carb kúrnum sem ég byrja á morgun, innblásinn af bókinni Lág kolvetna lífsstílinn og The 4-Hour Body. Ætla að vikta mig á hverjum degi og deila framvindunni með ykkur. Þar sem ég dauðskammast mín fyrir að vera orðinn mun feitari en ég ætlaði mér nokkurn tíma hef ég hins vegar ákveðið að halda nafninu mínu leyndu, enn sem komið er að minnsta kosti.

No comments:

Post a Comment