Friday, July 19, 2013

Bless fitubollur!

Á morgnanna fæ ég mér svart kaffi með smá kókosolíu
út í, sem bragðast betur en ég hefði þorað að vona.
Húrra! Þetta þokast í rétta átt. Þegar ég hlunkaðist á vigtina í morgun sýndi hún mér áður óþekkta tölu eða 95.6 kg, sem þýðir að ég er 2.8 kg minni fitubolla í dag en þegar ég gúffaði í mig síðustu kolvetnunum fyrir fimm dögum síðan.

Þegar ég stóð berrassaður fyrir framan spegilinn í morgun (I know, not a pretty sight!) fannst mér eins og ég væri aðeins minni rostungur í dag en þegar ég byrjaði. Í ljósi þess að ég hef vigtina mína enn þá grunaða um að vera lygamörður ákvað ég að draga fram hávísindalegt tól til þess að athuga hvort það gæti verið að ég væri í raun og veru minni í dag en áður. Málband! 

Á sunnudagskvöldið síðasta mældi ég mig fram og til baka og skráði samviskusamlega niður. Mál voru tekin af brjóstkassa, maga, læri og upphandlegg (þríhöfða). Niðurstöðurnar voru ótvíræðar og ágætis hvatning til þess að halda áfram á sömu braut. Magamálið hafði minnkað um heila fjóra sentimetra, brjóstkassinn og upphandleggurinn voru óbreytt en lærið hafði stækkað örlítið (skrifa það á rosalega æfingu í vikunni). 

Allt er þetta í rétta átt og ef guð lofar verður enn þá minna af mér til þess að elska að annari viku liðinni.

No comments:

Post a Comment