Friday, August 9, 2013

Fataskápurinn stækkar

Á tæpum fjórum vikum á lágkolvetna kúrnum hefur magamálið mitt minnkað um 8 cm. Til þess að fagna þessum tímamótum fór ég út í bílskúr í gær, að leita af gömlum fötum. Flestum flíkunum hafði verið pakkað niður þegar ekki var lengur hægt að koma bumbunni fyrir í þeim. Það var ánægjulegt að komast aftur í föt sem manni fannst hafa verið send í helgan stein langt fyrir aldur fram. Fataskápurinn hefur stækkað umtalsvert fyrir vikið. Og mun halda áfram að stækka með þessu áframhaldi.

Enn sem komið er hef ég ekki tekið neina nammidaga og hef ekki í hyggju að byrja á því núna. Þó er ég að fara á árshátíð í vinnunni minni þann 7. september, þar sem boðið verður upp á alls kyns kræsingar sem erfitt verður að fúlsa við. Þar af leiðandi hef ég ákveðið að ég muni éta sykur og önnur kolvetni á þeim degi. 

Þegar ég er kominn niður í mína kjörþyngd, sem er eitthvað í kringum 82-3 kg, þá hafði ég hugsað mér að byrja að leyfa mér meira. Á meðal þess sem ég mun þá taka inn eru flókin kolvetni, s.s. sætar kartöflur og baunir. Ég hugsa að ég muni ekki éta kartöflur aftur og sé ekki fram á að sakna þeirra neitt sérstaklega. Hefðbundið brauð er líka að mestu leyti úti um alla framtíð, hugsa ég. Þá geri ég ráð fyrir því að ég muni leyfa mér einhver sætindi endrum og eins, en þó ekki þannig að ég sé að gúffa í mig Vesturbæjarís á hverju kvöldi. Hef mjög takmarkaðan áhuga á að missa tökin aftur -- einfaldlega nenni því ekki.

1 comment:

  1. Frábært hjá þér, fátt betra en að komast i ,,gömul,, föt :)

    ReplyDelete